Kína hefur tekið fram úr Bandaríkjunum og er nú stærsti nettóinnflytjandi olíu í heiminum, ef marka má tölur frá desember í fyrra. Bandaríkin hafa allt frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar verið í fyrsta sæti yfir olíuinnflytjendur, en aukin olíuframleiðsla heima við hefur leitt til þess að olíuinnflutningur þar hefur dregist töluvert saman.

Í frétt Financial Times segir að fara verði varlega í að fullyrða hvort um varanlega breytingu sé að ræða. Það verði ekki ljóst fyrr en eftir nokkra mánuði, þegar frekari upplýsingar liggja fyrir. Ef breytingin er varanleg getur hún haft veruleg áhrif á alþjóðastjórnmálin, því olíuinnflutningur Bandaríkjanna hefur ráðið nokkru um stefnu landsins í alþjóðamálum og samskiptum Bandaríkjanna við ríki eins og Sádí-Arabíu, Írak og Venesúela.

Tölurnar, sem um ræðir eru fyrir desember í fyrra og bandaríska skattkerfið hefur nokkuð með þær að segja. Þarlend olíufyrirtæki draga venjulega úr olíuinnkaupum fyrir áramót til að minnka birgðir sínar og þar með skattgreiðslur. Yfir allt síðasta ár var nettóinnflutningur af olíu meiri í Bandaríkjunum en Kína, en munurinn hefur minnkað mjög undanfarin ár.