Kínverjar voru um langa hríð stærsti innflytjandi vopna í heiminum en eru nú orðnir þriðji stærsti vopnaútflytjandi heims samkvæmt nýrri skýrslu, sem greint er frá í frétt Wall Street Journal . Útflutningurinn nam 300 milljörðum dollara á síðasta ári. Aukningin vekur athygli stjórnvalda í Washington sem hafa áhyggjur af því að vopnin berist til aðila óvinveittum Bandaríkjunum. Kínverjar segjast hins vegar ekki blanda sér í innanríkismál þeirra landa sem kaupa af þeim vopn. Tveir þriðju hlutar útflutningsins fara til Pakistan, Bangladess og Myanmar, en auk þess hafa kínversk vopn verið notuð í baráttu nígeríska hersins við hryðjuverkasamtökin Boko Haram.

Kína hefur löngum staðið í landhelgisdeilum við nágrannalönd sín, svo sem Japani og Filippseyjar. Hin aukna vopnaframleiðsla Kínverja er talin til marks um áhuga þarlendra stjórnvalda á auknu sjálfstæði í vopnamálum. Aukin vopnaframleiðsla í Kína er afleiðing hagvaxtar og tækniþróunar en Kínverjar hafa löngum verið sakaðir um iðnaðarnjósnir á Vesturlöndum. Á meðal þeirra vopna sem Kínverjar flytja út eru háþróuð loftvarnarkerfi, herþotur og eldflaugaskotpallar, en auk þess eru Kínverjar taldir hafa yfirburði í ódýrum og einföldum vopnum.

Þrátt fyrir þessa nýlegu þróun er hlutdeild Kínverja í heimsmarkaðnum með vopn aðeins 5%. Það er langtum minna en hlutdeild Bandaríkjamanna og Rússa sem deila með sér rúmlega helmingnum af heimsmarkaðnum.