Kínverski bílaframleiðandinn Gleely sem nýlega keypti bílaverksmiðjur sænska fyrirtækisins Volvo hyggst setja á markað á næsta ári ódýrasta bíl heims. Nýi bíllinn ber heitið Geely Gleagle IG er ætlað að slá hinum indverska Tato Nano út hvað verð snertir að því er segir í kínverska bílablaðinu Gasgoo.

Árgerð 2012 af Geely Gleagle IG á að koma á markað á seinni hluta næsta árs og mun bæði verða í boði með bensínvél og rafmótor. Hann var kynntur á bílasýningu Beijing Motor Show nýverið og á að kosta sem svarar 2.700 dollurum eða um 348 þúsund íslenskar krónum. Helsti keppinauturinn Tata Nano kostar sem svarar 3.800 á markaði á Indlandi eða sem svarar 490 þúsund íslenskum eðalkrónum og er sem stendur sagður ódýrasti bíll í heimi.

Geely Gleagle IG bíllinn sem kynntur var á sýningunni í Beijing var með SLS AMG-esque vænghurðum ættuðum frá Mercedes Benz. Bíllinn þykir fremur kubbslegur en hann er samt 185 millimetrum lengri en Toyota iQ smábíllinn og með 100 millimetrum meira hjólabili. Bíllinn er ætlaður fjórum, en aftursætisfarþegarnir mega sannarlega ekki vera í neinni yfirstærð.