Gert er ráð fyrir að birgðir af kindakjöti í landinu við upphaf sláturtíðar verði sjö hundruðum til eitt þúsund tonnum meiri en æskilegt væri. Þetta segir Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts í samtali við Fréttablaðið . Hann tekur fram að innanlandssala hafi gengið vel en að útflutningurinn hafi dregist saman tvö ár í röð, meðal annars vegna gengisstyrkingar krónunnar og lokun markaða í Noregi og Rússlandi.

Svavar tekur fram að sú undarlega staða blasi við að þrátt fyrir talsverða aukningu í innanlandssölu, hún jókst um 16,6% á öðrum fjórðungi ársins, og mikinn árangur í markaðssetningu gagnvart erlendum ferðamönnum, séu „alvarlegar blikur á lofti varðandi afurðaverð“ í haust. Útflutningur á kindakjöti dróst saman um 5,1% í fyrra. Þá voru alls flutt út 2.800 tonn fyrir tæpa tvo milljarða króna. Árið 2015 dróst útflutningurinn saman um 14,4%. Hann segir að vonir séu bundnar við ný verkefni á betur borgandi mörkuðum.