Sex teymi hafa verið valin til þátttöku í Startup Orkídeu á vegum Icelandic Startups. Startup Orkídea er vettvangur fyrir þróun viðskiptahugmynda og nýsköpunarverkefna rótgrónari fyrirtækja sem vinna að sjálfbærum lausnum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni.

Verkefnið byggir á alþjóðlega sannreyndri aðferðafræði og áralangri reynslu Icelandic Startups af stuðningi við frumkvöðla og sprotafyrirtæki og miðar að því að koma vöru á markað.

Teymin sem taka þátt í Startup Orkídeu eru eftirfarandi:

  • 1000 Ára Sveitaþorp: Kindakol, vistvæn leið til að grilla og reykja matvæli
  • Arctic Salmon : Hátækni fullvinnsla á eldislaxi
  • Krakkakropp: Einstakt barnanasl úr íslensku grænmeti sem bráðnar í munni
  • Livefood ehf: Ostar úr plönturíki íslenskrar náttúru og sjálfbærra auðlinda
  • Sif Biotech: Líftæknifyrirtæki sem nýtir plöntur sem sveigjanlegar framleiðslueiningar fyrir próteinafurðir og líftæknilyf
  • Viskur: Framleiðir grænkeramat sem líkist íslenskum sjávarafurðum

Samkvæmt tilkynningu frá Icelandic Startups hafa teymin þegar hafist handa og drekka í sig fróðleik, en þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði nýsköpunar og sækja einnig fundi með fjölda leiðbeinenda úr atvinnulífinu.