Tælenska fyrirtækið King Power sem er eigandi enska knattspyrnuliðsins Leicester City hefur verið sakað um svíkja tælenska ríkið um greiðslur að andvirði 327 milljóna punda. Samkvæmt frétt Guardian hefur fyrirtækið ekki staðið við samkomulag um að greiða tælenska ríkinu 15% af hagnaði vegna reksturs á fríhafnarverslun á Suvarnabhumi flugvellinum í Bangkok sem er sá tólfti fjölfarnasti í heiminum.

King Power er í eigu Vichai Srivaddhanaprabha, stjórnarformanns Leicester City. Liðið sem öllum að óvörum varð Englandsmeistari árið 2016 var keypt af King Power árið 2010 fyrir 39 milljónir punda og heitir leikvangur liðsins eftir fyrirtækinu. King Power lánaði síðan Leicester 100 milljónir punda til að geta staðið við launagreiðslur og greitt upp skuldir. Var þessi 100 milljóna skuld afskrifuð eftir að liðið komst upp í ensku úrvalsdeildina árið 2014.

Fyrirtækið hefur nú verið lögsótt af nefnd á vegum tælenskra stjórnvalda sem ætlað er að vinna gegn spillingu og er málið litið alvarlegum augum. Árið 2006 gerði fyrirtækið samkomulag við stjórnvöld um rekstur á fríhafnarverslun gegn því að það myndi greiða 15% af hagnaðinum til ríkisins. Í ákærunni kemur fram að King Power hafi í samráði við starfsmenn flugvallarins einungis greitt 3% af hagnaði til ríkisins. Er þess krafist að fyrirtækið greiði ríkinu andvirði 327 milljóna punda.