Mervyn King, fyrrverandi bankastjóri Englandsbanka, Seðlabanka Bretlands, segir að von sé á nýrri heimskreppu. Grundvallar endurbætur í peningakerfinu geti þó komið í veg fyrir hana.

Þetta kemur fram í nýrri bók eftir King. Hann segir að mistök við að takast á óstöðugleika í efnahagskerfinu valdi því að líkur eru á því að kreppa muni koma fyrr en seinna. Hann segir einnig að kreppan 2008 hafi komið til vegna mistaka í fjármálakerfi heimsins, en ekki vegna einstakra bankamanna.

„Einungis grundvallarbreyting á því hvernig við, sem samfélag, hugsum og skipuleggjum fjármálakerfið getur komið í veg fyrir endurtekningu á fjármálakreppu í líkingu við það sem gerðist árið 2008.“

Í bók sinni kemur hann einnig inn á stöðu seðlabanka heimsins, en hann segir þá vera fasta milli steins og sleggju; þeir vilji, en geti ekki hækkað stýrivexti vegna hættu að þeir ógni efnahagsbatanum.

Mervyn King var bankastjóri Englandsbanka á árunum 2003 til 2013.