Flug kínverska flugfélagsins Juneyao hingað til lands sem hefjast átti 31. Mars næstkomandi hefur verið aflýst vegna áhrifa Wuhan veirunnar svokölluðu að því er Túristi greinir frá.

Eins og sagt var frá í fréttum í októberlok ákvað flugfélagið að hefja flug hingað til lands frá Shanghaí borg í Kína, með millilendingu í Helsinki í Finnlandi, og svipað var til skoðunar hjá fleiri félögum þar í landi.

Ætlunin var að 30 ferðir yrðu farnar hingað til lands frá vori fram á haust, tvisvar í viku, en nú er ljóst að stjórn félagsins hefur aflýst fyrstu ferðunum.

Er þannig gert ráð fyrir að félagið fljúgi einungis til Helsinki fyrstu vikurnar eða fram í apríl, en Túristi sagði frá því fyrr í vikunni að búið væri að loka fyrir bókanir í fyrstu sjö ferðirnar hingað til lands.