Kínversk stjórnvöld hvetja leiðtoga Evrópu að standa við stóru orðin um að þeir geti ráðið við skuldavanda evruríkjanna.  Þetta kemur fram á vef Reuters.

Kínverjar, sem hafa fjárfest háum upphæðum í skuldabréfum evruríkjanna, vilja sjá frekari aðgerðir af hálfu Evrópuríkjanna svo skuldakrísan versni ekki.

Í kjölfar þess að ESB og AGS veittu Írlandi neyðaraðstoð hækkaði skuldatryggingarálag á skuldugustu evruríkin mikið.  Þá hóf evrópski seðlabankinn uppkaup á skuldabréfum sem olli snarpri lækkun á skuldatryggingarálaginu.

Undanfarna viku hefur skuldatryggingarálagið þokast upp hjá vandræðaríkjunum innan ESB.  Álagið á Grikkland er nú 974 eftir að hafa farið undir 900 fyrir nokkrum vikum. Álagið á Spán er komið í 375 en var undir 200 fyrir mánuði síðan.  Álagið á Ítalíu er 208.  Augu markaðsaðila hafa sérstaklega beinst að Spáni og Ítalíu undanfarið vegna áhyggja af því að sama staða komi þar upp líkt og í Grikklandi og Írlandi.

Skuldatryggingarálagið á Ísland í gær var 265.