*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 5. janúar 2017 14:51

Kínverjar banna New York Times smáforritið

Apple hefur þurft að taka New York Times smáforritið úr umferð að beiðni kínverskra stjórnvalda.

Ritstjórn
epa

Apple hefur þurft að taka New York Times smáforritið úr umferð í Kína að beiðni kínverskra stjórnvalda. Í grein New York Times um málið segir að með ákvörðuninni hafi verið vegið að frjálsri fjölmiðlun.

Í svar Apple segir að smáforritið hafi brotið gegn kínverskum reglugerðum, en þó tilgreindu stjórnvöld ekki hvaða reglugerðir hafi verið brotnar. Erfitt hefur reynst fyrir fjölmiðla vesturríkja að hasla sér völl í Kína, þar sem að kínversk stjórnvöld hafa verið ötul við að banna efni eða stýra aðgangi að því.

Apple neyddist til að eyða bæði kínversku og ensku útgáfunum af New York Times smáforritinu úr sölutorgi smáforrita sem að fyrirtækið heldur úti. Haft er eftir talsmanni Apple í frétt New York Times að „þegar staðan breytist getum við opnað aftur aðgang að smáforriti New York Times í Kína.“ Blaðið hefur þegar biðlað til Apple að endurskoða ákvörðunina.

Fréttasíðan í banni frá 2012

Vefsíða New York Times hefur verið bönnuð í Kína frá árinu 2012 eftir að blaðið birti umfjöllun um auðsöfnun kínverska fjölskyldna tengdum kínverska kommúnistaflokknum.

Enn er hægt að nálgast smáforrit vestrænna miðla á borð við the Washington Post, the Wall Street Journal, BBC News, the Financial Times, CNN og Reuters á sölutorgi Apple. Blátt bann er á vefsíðum á borð við Google, YouTube og Facebook er enn við lýði í kínverska alþýðulýðveldinu.

Stikkorð: Kína New York Times Kína smáforrit