Kínverska risafyrirtækið China Blue Star áformar að setja um milljarð bandaríkjadala, sem svarar 127 milljörðum króna, í fyrirhugaða kísilmálmverksmiðju á Grundartanga og er gengið út frá því að hún muni skapa hundruð starfa í framtíðinni.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og segir heimildir blaðsins öruggar. Su Ge, sendiherra Kína á Íslandi, staðfestir við blaðið að Jóhanna Sigurðardóttir hafi rætt við Wen Jiabao í heimsókn hans til landsins um möguleikann á að hefja viðræður á ný um fríverslunarsamning milli Íslands og Kína.

Kínverska ríkið á 80% hlut í China Blue Star. Fyrirtækið tók yfir Elkem, og þar með járnblendið, í fyrra.