Stór kínverskur olíuframleiðandi hefur yfirtekið kanadíska fyrirtækið Nexen Inc. fyrir 15,1 milljarða dollara. Forsvarsmenn Nexen staðfestu þetta í dag. Miðað við kaupverðið er virði hluta Nexen 27,50 dollarar. Það jafngildir 61% álagi á markaðsverð hlutanna við lokum markaða á föstudag en verðið var þá 17,06 dollarar.

Hlutabréfaverð í fyrirtækinu hækkaði um 50% við upphaf viðskipta í dag. Þessi nýju kaup bætast við fjölda kaupa kínverskra olíufyrirtækja í Norður Amerískum olíuframleiðendum á undanförnum mánuðum. Kínverska fyrirtækið CNOOC keypti 2 milljarða dollara hlut í kanadíska fyrirtækinu OPTI Canada á síðasta ári. Á sama tíma greiddi fyrirtækið China National Petroleum Corp. fimm milljarða dollara fyrir hlut sinn í öðru kanadísku olíufyrirtæki.

Kaupin eru sögð knúin af aukinni orkuþörf í Kína ef marka má frétt CNN um málið. Þar segir að núverandi orkuneysla Kínverja sé um 10 milljón tunnur á dag, sem er rúmlega helmingur þess sem notað er í Bandaríkjunum. Líkt og Bandaríkjamenn flytja Kínverjar inn um helming af þeirri olíu sem þeir þurfa. Ólíkt Bandaríkjunum fer olíuþörfin í Kína hins vegar ört vaxandi.