Bílaframleiðandinn Jaguar Land Rover batt miklar vonir við sölu á nýja Range Rover Evoque jeppanum í Kína. Nú hefur hins vegar komið upp sú hraðahindrun að Kínverjar eru að hefja sölu á nýjum bíl sem kallast Landwind X7, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í desember.

Landwind X7 bíllinn er nánast óaðgreinanlegur frá Evoque bílnum og svo virðist sem bíllinn sé mjög eftirsóttur í Kína. Alls hafa 5.500 manns pantað bílinn og lagt inn tryggingu, en einn X7 jeppi kostar einungis 21.700 Bandaríkjadali. Það er talsvert minna en þeir 65.000 til 90.000 dalir sem kostar að kaupa Evoque í Kína.

„Við viljum ekki tjá okkur um smáatriði tengd Landwind X7, en það er óhætt að segja að við tökum því mjög alvarlega að verja okkar hugverkarétt,“ sagði talsmaður Jaguar Land Rover við Business Insider , en þar má sjá fleiri myndir og samanburð á bílunum.

Kínverska eftirherman birtist fyrst á bílasýningu í Guangzhou í nóvember 2014 og yfirhönnuður Jaguar, Ian Callum, birti þá myndir af X7 bílnum á Twitter og benti á hversu líkur hann væri Evoque.

„Mér finnst það mjög leiðinlegt að svona eftirhermur séu að koma upp aftur, þetta mun alls ekki hjálpa kínverskum iðnaði. Það eru engin lög þarna sem vernda okkur svo við verðum bara að sætta okkur við það, en í Evrópu erum við verndaðir gagnvart svona eftirhermum. Það er ekki hægt að fá vernd í Kína,“ sagði Ralf Speth, forstjóri Jaguar Land Rover.