*

laugardagur, 11. júlí 2020
Erlent 20. maí 2018 10:10

Kínverjar gáfu eftir fyrir Trump

Stjórnvöld í Kína hafa samþykkt að kaupa umtalsvert meira frá Bandaríkjunum til að tryggja viðskipti landanna.

Ritstjórn
Donald Trump tilkynnti um álagningu tolla á kínverskar vörur 22. mars síðastliðinn, en nú virðist hættan á viðskiptastríði landanna liðin hjá í bili, m.a. vegna komandi leiðtogafundar Bandaríkjanna og Norður Kóreu.
epa

Í sameiginlegri yfirlýsingu eftir langar viðræður í Washington hafa kínversk og Bandarísk stjórnvöld lýst því yfir að Kína muni auka kaup sín á bandarískum vörum og þjónustu umtalsvert. Á sama tíma berast fréttir um að atvinnuleysi í Bandaríkjunum, t.a.m. í Kaliforníu sé í sögulegu lágmarki.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um ítarlega hafa hótanir um tollahækkanir gengið á víxl milli landanna en Bandaríkin hafa löngum sakað Kínverja að halda gjaldmiðli sínum niðri sem og stela bandarískri tækni kerfisbundið.

Á síðasta ári var methalli á viðskiptum Bandaríkjanna við Kína, en fyrrnefnda landið flutti inn fyrir 375 milljarða dala meira frá því síðarnefnda en flutti út. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði í kosningabaráttu sinni farið mikinn um það sem hann kallaði ósanngjarna viðskiptasamninga Bandaríkjanna við lönd heims, þar sem hann sagði að verulega hallaði á Bandaríkin.

Nátengt leiðtogafundi við Kim Jong-Un

Hagfræðingurinn Eswar Prasad hjá Cornell háskólanum segir í samtali við Washington Post að þetta muni a.m.k. tefja að tollar sem hótað var á bóða bóga yrðu settir á, en einnig setti hann þetta í samhengi við áætlaðann fund leiðtoga Norður Kóreu Kim Jong-Un, bandamanns Kína, og Donald Trump Bandaríkjaforseta 12. júní næstkomandi.

Trump hefur síðan hann tók við lagt alla ábyrgð á kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunum kóreska kommúnistaríkisins á herðar kínverskra stjórnvalda, enda hafi þau löngum hlíft landinu við áhrifum efnahagsþvingana umheimsins. Viðskiptablaðið sagði frá því þegar kínversk stjórnvöld samþykktu að taka þátt í enn harðari viðskiptaþvingunum gegn landinu sem miðuðu að því að draga úr gjaldeyristekjum þess um þriðjung.

Tollastríði afstýrt í bili, þó ekki nefndir

Í yfirlýsingu landanna eftir fundinn var þó hvorki minnst á tollana sem hótað var að setja, né á ákveðnar tölur um minnkun viðskiptahallans líkt og yfirmaður efnahagsráðgjafanefndar Bandaríkjanna, Lawrence Kudlow hafði minnst á. Hafði hann sagt að minnkun hallans um 200 milljarða fyrir árið 2020 væri góð tala.

Varaforseti Kína, Liu He leiddi viðræðurnar fyrir hönd Kína, en fyrir Bandaríkin var það Steven Mnuchin, fjármálaráðherra sem stýrði viðræðuteyminu, en í því voru einnig viðskiptaráðherrann Wilbur Ross og Robert Lighthizer.

Sá síðarnefndi hóf í ágúst síðastliðnum umtalsverða rannsókn á aðgerðir Kínverja til að öðlast bandaríska tækniþekkingu, bæði með beinum þjófnaði, en einnig með kröfum gagnvart bandarískum fyrirtækjum að þau verði að afhenda tækni sína ef þau vildu hafa aðgang að kínverska markaðnum.

Tollar og bönn á bóða bóga

Í síðasta mánuði tilkynntu Bandarísk stjórnvöld um að settir yrðu tollar á innflutning frá Kína að andvirði 50 milljarða dala og hótuðu að bæta við á næstunni á 100 milljarða dala innflutning til viðbótar.

Á móti hótuðu Kínverjar tollum á innflutning fyrir 50 milljarða dala, sem legðist sérstaklega á svæði sem studdu forsetaframboð Donald Trump, t.a.m. með því að setja tolla á landbúnaðarvörur eins og sojabaunir.

Þá bættu Bandaríkjamenn við banni á innflutning á nauðsynlegum tæknibúnaði til kínverska símafyrirtækið ZTE og þurfti fyrirtækið að tilkynna um að starfseminni yrði lokað tímabundið.