Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið hafður að háði og spotti í kínverskum fjölmiðlum vegna tolla sem forsetinn hefur lagt á kínverskar vörur. Í frétt á vef BBC greinir frá því að í kínverskum fjölmiðlum sé sagt um Trump að „vitrir menn byggi brýr en vitleysingar veggi.“

Forsetinn hefur ákveðið að leggja 25% tolla á tilteknar vörur og hafa Kínverjar svarað í sömu mynt. Tollarnir leggjast á 659 vöruflokka bandarískra vara og er talið að kostnaðurinn vegna tollanna verði 50 milljarðar bandaríkjadala. Hlutabréfaverð víða um heim tók dýfu eftir að fréttir bárust af því sem virðist vera tollastríð í uppsiglingu.