Kínverskir ferðalangar munu nú geta notað greiðslukortin sín á íslenskri grundu en hingað til hefur íslenskum þjónustuaðilum ekki verið fært að taka á móti kortum frá Kína. Fjármálafyrirtækið Borgun hf. hefur gert samning við kínverska kreditkortarisann Union Pay en kortin þeirra eru þau mest notuðu í Kína. Borgun hf. býður því viðskiptavinum sínum nú upp á færsluhirðingu á hinum kínversku kortum.

Með auknum hagvexti og farsæld í Kína fjölgar ferðamönnum þaðan stöðugt og í tilkynningu frá Borgun segir að þeir eyði mun hærri upphæðum á ferðalögum en aðrir erlendir ferðamenn að jafnaði.

Árið 2010 komu rúmlega 5.000 kínverskir ferðamenn til Íslands en yfirvöld hérlendis hafa markvisst unnið að því undanfarin ár að kynna Ísland fyrir Kínverjum sem áhugaverðan áfangastað.