Kínversk stjórnvöld gætu aukið enn frekar hlut sinn í BG Group Plc - þau hafa nú þegar keypt 0,46% hlut í félaginu - sem er þriðji stærsti gasframleiðandi Bretlands.

Seðlabanki Kína er talinn hafa keypt 15,5 milljón hluti í BG Group á tímabilinu 15. júní til 13. júlí síðastliðinn, að því er Bloomberg fréttastofan hefur eftir Fred Lucas, sérfræðingi hjá fjármálafyrirtækinu Cazenove. Fyrr á þessu ári komu kínversk stjórnvöld á fót sérstökum ríkisfjárfestingarsjóði (e. sovereign wealth fund) með það að markmiði að beina að hluta til hinum gríðarmikla gjaldeyrisvaraforða sínum - sem er um þessar mundir metinn á ríflega 1,3 billjónir Bandaríkjadala - í áhættusamari fjárfestingar á alþjóðamörkuðum. Fram að því höfðu Kínverjar að mestum hluta fjárfest í skuldabréfum og öðrum öruggum fjárfestingum, einkum bandarískum ríkisskuldabréfum.

Í ljósi þess hversu háar upphæðir er um að ræða, sem Kínverjar hyggjast færa úr bandarískum ríkisskuldabréfum yfir í aðrar áhættusamari fjárfestingar, telur Lucas mjög sennilegt að kínversk yfirvöld taki þá ákvörðun að auka hlut sinn verulega í BG Group á næstu misserum.

Talskona breska gasframleiðandans, Trina Fahey, staðfesti á mánudaginn að Seðlabanki Kína væri orðinn hluthafi í félaginu. Hún vildi hins vegar ekki segja til um hversu stór sá eignahlutur væri. Haft er eftir talsmanni kínverska seðlabankans í frétt Bloomberg að bankinn eigi ekki beinan eignahlut í BG Group og að kaupin gætu hafa verið gerð í gegnum fjárfestingarsjóð stjórnvalda.

Framleiðsluaukning á fljótandi gasi (e. liquefied natural gas) og hærra verð á heimsmarkaði átti sinn þátt í því að hagnaður BG Group á öðrum ársfjórðungi jókst um 13% frá því á sama tímabili í fyrra, að því er félagið greindi frá í síðustu viku. Sérfræðingar telja að fjárfesting ráðamanna í Peking í fyrirtækinu endurspegli þá staðreynd að Kínverjar þurfa í auknum mæli að flytja inn fljótandi gas til landsins til að mæta ört vaxandi orkuþörf þjóðarinnar, samhliða hinum mikla efnahagsuppgangi sem á sér stað í Kína um þessar mundir.