*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Erlent 2. apríl 2018 09:53

Kínverjar hækka tolla á bandarískar vörur

Kínversk stjórnvöld samþykktu í gærkvöldi tolla upp á 3 milljarða dollara á 128 innflutningsvörur frá Bandaríkjunum.

Ritstjórn
Xi Jinping, leiðtogi Alþýðuveldisins Kína.
epa

Kínversk stjórnvöld samþykktu í gærkvöldi að hækka tolla upp í allt að 25% á 128 innflutningsvörur frá Bandaríkjunum. Tollarnir taka gildi í dag. Frosið svínakjöt, vín, ávextir og hnetur eru meðal þeirra vara sem tollarnir ná til. Reuters greinir frá.

Um er að ræða andsvar Kínverja við ákvörðun Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, að leggja 25% verndartoll á innflutt stál og 10% toll á innflutt ál. Gagntollar Kínverja, sem kynntir voru í síðasta mánuði og samþykktir í gærkvöldi, nema um 3 milljörðum Bandaríkjadala.

Bandaríkjaforseti kynnti jafnframt í síðasta mánuði refsitolla, sem taka brátt gildi, á yfir þúsund innflutningsvörur frá Kína upp á 50-60 milljarða dollara og takmarkanir á fjárfestingum Kínverja í Bandaríkjunum vegna hugverkaþjófnaðar þeirra þar í landi. Þar áður hafði Bandaríkjaforseti kynnt háa tolla á innflutta sólskildi og þvottavélar, sem bitna helst á innflutningi frá Kína. Trump-tollarnir svokölluðu hafa verið rökstuddir út frá því að þeir eigi að vernda bandaríska framleiðslu, rétta af viðskiptahalla Bandaríkjanna og auka atvinnustigið í landinu.

Kínversk stjórnvöld hafa sagst reiðubúin að svara tollum Trumps með  „nauðsynlegum aðgerðum“, en hingað til hafa mótvægisaðgerðirnar verið takmarkaðar. Tollarnir sem Kínverjar samþykktu í gærkvöldi eru til að mynda ekki andsvar við refsitollum Bandaríkjanna.

Bandaríkin og Kína eru tvö stærstu hagkerfi heims. Útflutningsdrifinn hagvöxtur í Kína er mjög háður útflutningi til Bandaríkjanna, en Kína er stærsti lánardrottinn bandaríska ríkisins.