Kína hefur hætt við að taka þátt í viðræðum við Bandaríkin og munu ekki senda varaforseta landsins, Liu He til Washington í næstu viku að því er WSJ greinir frá. Sendinefnd sem átti að ferðast til Bandaríkjanna í aðdraganda viðræðnanna hefur jafnframt hætt við komu sína.

Tolladeilur ríkjanna beggja fara nú síharðnandi og bætti Kína nú við andvirði 60 milljarða Bandaríkjadala af bandarískum innflutningsvörum til landsins sem þurfa að bera toll. Er það svar við tollum á vörur að andvirði 200 milljarða dala frá Kína sem Donald Trump Bandaríkjaforseti boðað á mánudag að taki gildi 24. september.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá boðaði Trump tolla á vörur fyrir andvirði alls innflutnings Kína til Bandaríkjanna sem svar við svartollum Kína vegna upphaflegra tolla Trump á Kína. Hefur Bandaríkjaforseti síðan boðað tolla á innflutning fyrir allt að 257 milljarða dala af kínverskum innflutningi.

Stjórnvöld í Washington hafa sagst vongóð um að lausn finnist í viðskiptadeilum landsins við Kína. Hins vegar sagði Reuters fréttastofan í gær frá því að ekki væri búið að boða til frekari viðræðna um málið. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin sendi varaforsetanum, Liu He, sem sér um viðskiptamál í stjórn Xi Jinping forseta Kína, boð á fundinn fyrir tveimur vikum.

Embættismenn í stjórn Trump hafa sagt að tilboð kínverskra stjórnvalda um að kaupa meira af bandarískum vörum, þar með talið landbúnaðarvörum, væri ekki nægilegt. Það svaraði ekki kröfum um að meira jafnræði ríkti í viðskiptum bandarískra fyrirtækja í Kína.