Kínverskir fjárfestar leita nú kauptækifæra í öllum norrænu kauphöllunum, þ.m.t. þeirri íslensku. Sérstaklega munu þeir íhuga kaup á tveimur fyrirtækjum. Þetta kemur fram í frétt sænska viðskiptavefjarins di.se en þar er rætt við Johan Nylén, lögmann fjárfestanna sem um ræðir.

Af trúnaðarástæðum vill Nylén þó ekki greina frá því hvaða fyrirtæki er um að ræða eða á hvaða markaði þau eru skráð en hann segir þau þó vera með margmilljarða veltu, í sænskum krónum talið. Þá vill hann ekki greina frá því hvort um kínversk ríkisfyrirtæki sé að ræða.

Beri Kínverjarnir árangur sem erfiði segir Nylén líklegt að fleiri fjárfestar frá Kína muni leita á sömu mið.