Sænski bílaframleiðandinn Saab mun hefja framleiðslu að nýju, eftir að Spyker, eigandi Saab, tryggði áframhaldandi rekstur með samningi við kínverska félagið Hawtai Motor Group. Kínverjarnir koma með um 150 milljónir evra í félagið og eignast um 30% hlut. Þá felur samkomulagið í sér að fyrirtækin deili verksmiðju og tækni, að því er kemur fram á vefsíðu BBC.

Saab hefur átt í miklum erfiðleikum. Framleiðsla stöðvaðist þann 6. apríl síðastliðinn eftir að félagið gat ekki greitt birgjum. Um 30 milljónir evra voru tryggðar í gær með skammtímafjármögnun. Ekki er langt síðan Spyker bjargaði Saab frá gjaldþroti, en félagið keypti bílaframleiðandann í byrjun árs 2010 af General Motors.

Victor Muller, forstjóri Spyker og stjórnarformaður Saab, segir að aðkoma Hawtai Group tryggi áframhaldandi rekstur. Þá gefi samningurinn Saab færi á að hefja sölu bifreiða í Kína.