Í Morgunkorni Glitnis segir að kínverska júanið hafi ekki styrkst eins mikið og í gær undan farin tvö ár. Seðlabankinn í Kína, sem stýrir genginu, gaf í skyn að gjaldmiðlinum yrði leyft að styrkjast hraðar til að minnka metafgang á vöruskiptum og hægja á verðbólgu.

Aðgerðirnar eru svar við kröfu sjö helstu iðnríkja heims. Vöruskiptaafgangur fyrstu níu mánaða ársins hefur flætt inn í bankakerfið og hefur kínverski seðlabankinn hækkað vexti fimm sinnum á árinu eftir að verðbólga náði 10 ára hámarki.

Útlánavöxtur, fjárfesting og verðbólguþrýstingur eru þó enn til staðar og hafa Kínverjar fjárfest í hlutabréfum í stórum stíl í því skyni að hljóta ávöxtun umfram verðbólgu og hagnast á örum hagvexti.

Eftir að markaðsvirði China Life Insurance fór fram úr markaðsvirði AT&T eru fimm af tíu verðmætustu fyrirtækjum heims að markaðsvirði kínversk og þrjú bandarísk.

Helsta hlutabréfavísitala Kína hefur nær þrefaldast á árinu og hafa eftirlitsaðilar varað sparifjáreigendur sem fjárfesta í markaðinum við þeirri miklu áhættu sem í honum felst.