Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, sagði í dag að Kínverjar myndu áfram styðja við evruna með kaupum á gjaldmiðlinum sjálfum og evrópskum ríkisskuldabréfum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Sagði Jiabao að Kínverjar styðji stöðuga evru. Jiabao, sem er í opinberri heimsókn í Grikklandi, lofaði jafnframt að kaupa grísk ríkisskuldabréf þegar þau yrðu næst til sölu. Kínverjar hafa undanfarið einnig keypt spænsk ríkisskuldabréf.

Kínverjar hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir að halda gjaldmiðli sínum, yuan, sérlega veikum til að auka samkeppnishæfni iðnaðar þar í landi.