Bangsímon er bangsi sem að flestir telja nokkuð vinalegan og skaðlausan. Þessu virðast kínversk stjórnvöld ósammála, en nú hafa þau bannað birtingu af myndum af bangsanum vingjarnlega á samfélagsmiðlum að því er kemur í umfjöllun Financial Times um þetta furðulega mál.

Bannað er að birta myndir af Bangsímon á miðlum á borð við Sina Weibo og á spjallforritinu WeChat. Kínversk stjórnvöld gáfu ekki upp neina skýringu á því hvers vegna þeir bönnuðu myndirnar, en talið er líklegt að bannið tengist grínmynd þar sem að Barack Obama og Xi Jinping er líkt við Bangsímon og Tuma tígur. Myndina af þeim félögum er hægt að sjá hér að neðan.

Ritskoðunin er hluti af talsvert alvarlegra ástandi en í frétt Financial Times segir prófessor í fjölmiðlafræði í samtali við blaðið að það hafi alltaf verið bannað að skipuleggja pólitíska fundi eða mótmæli, en nú hefur bæst nýr hlutur á listann: Að tala illa um forsetann. Vitað er til þess að einstaklingar hafi verið handteknir fyrir að skrifa illa um forsetann. „Ég held að Bangsímon málið sé hluti af þessu,“ segir Qiao Mu, kennari við Beijing Foreign Studies háskólann.