Nú má Wall Street fara að vara sig því Kínverjar munu á næstunni koma sér upp sínu eigin nauti í helstu viðskiptaborg Kína, Shanghai.

Flestir kannast við nautið á myndinni hér til hliðar en það er staðsett við Bowling Green garðinn, nærri Wall Street á Manhattan í New York, miðju allra viðskipta í Bandaríkjunum. Nautið, sem sett er saman úr bronsi, á að vera tákn velgengi og jákvæðni í fjármálageiranum og var sett upp árið 1989.

China Daily sagði frá því í morgun að nautið sem sett verður upp í Shanghai á að standa við árbakka Bund árinnar, beint á móti Pudong, fjármálahverfi Shanghai.

Kínverska nautið verður þó heldur stærra en það bandaríska, mun vega um 6 tonn en nautið á Wall Street vegur „aðeins“ 3,2 tonn.

Blaðið hefur eftir kínverskum borgarfulltrúa í Shanghai að tilgangur nautsins sé að færa Kínverjum sjálfstraust og velgengni á þeim erfiðum tímum sem nú ríkja á fjármálamörkuðum.

„Shanghai er mjög ólík New York, þannig að við munum biðja hönnuðinn að bæta við kínverskum karaktereinkennum á skúlptúrinn,“ segir borgarfulltrúinn í samtali við China Daily.

Hér má sjá Wikipedia umfjöllun um nautið í New York.