Gengi hlutabréfa hefur lækkað nokkuð á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag eftir að stjórnvöld í Kína greindu frá því að þau ætli að auka aðhald í stjórn peningamála og halla dyrunum að aðgengi að ódýru lánsfé.

Aðalvísitalan í Kauphöllinni í Sjanghæ féll um 5% í nótt og smitaði það út frá sér á aðra markaði. Nikkei-vísitalan í Japan lækkaði um tæp 1,3% í morgun og fylgdu evrópskir markaðir í kjölfarið. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur lækkað um 1,4% það sem af er degi, CAC 40-vísitalan í Frakklandi hefur lækkað um 1,8% og Dax-vísitalan í Þýskalandi um 1,17%. Þá lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur nokkuð við opnun markaða í Bandaríkjunum í dag. Dow Jones-vísitalan lækkaði um 1,1% og bæði Nasdaq- og S&P 500-vísitölurnar álíka mikið.