Kínversk stjórnvöld reyna að hindra útbreiðslu kórónuvírusins Covid-19, sem kenndur hefur verið við Wuhan borg, með því að bankar sótthreinsa alla seðla áður en þeir fara á ný út til almennings.

Segja stjórnvöld að bönkum verði ekki heimilað að setja seðla í umferð nema þei hafi verið sótthreinsaðir, annað hvort með útfjólubláu ljósi eða hitameðferð. Þeir verði svo að vera geymdir í 14 daga áður en leyft verður að setja þá í umferð á ný.

Auk þess verði peningar sem komi frá áhættustöðum eins og mörkuðum og sjúkrahúsum verði þó alfarið teknir úr umferð, innsiglaðir og meðhöndlaðir sérstaklega af seðlabanka landsins. Loks hefur flutningur seðla og mynntar milli landshluta verið stöðvaður í þessu víðfeðma landi, auk þess að takmarkanir hafi verið settar á ferðir starfsmanna.

Stjórnvöld hafa jafnframt lýst því yfir að þau ætli sér að gefa út nýja seðla sem ekki sé hætta á að beri með sér sjúkdóminn. Skömmu fyrir kínverska nýárið í lok janúar gaf seðlabankinn um 4 milljarða yuan í seðlum til Wuhan borgar.

Segjast stjórnvöld síðan hafa lagt mikla áherslu á öryggismál og heilbrigði við meðhöndlun seðla. „Fyrir 17. janúar hafði seðlabankinn skipulagt útgáfu um 600 milljarða yuan, af nýjum seðlum í landinu,“ hefur CNBC eftir aðstoðarseðlabankastjóranum Fan Yifei.

Reyna að auka notkun farsímagreiðslna

Hann segir bankann einnig vera að flýta fyrir aukinni notkun farsímagreiðslna í viðskiptum til að draga úr snertiflötum milli manna við kaup og sölu, enda séu slík kerfi komin langt á veg í landinu.

„Undanfarið hefur verið ný þróun á ýmsum stöðum - fólk getur borgað fyrir pantanir í gegnum símana sína, keypt ferskt kjöt, egg, grænmeti og ávexti á viðráðanlegu verði án þess að fara út úr húsi, sem hefur leyst mörg vandamál í lífi fólks meðan á faraldrinum hefur staðið.“

Faraldsfræðingar eru þó ekki vissir um að tilraunir til að sótthreinsa seðla og myntir hafi mikil áhrif á það að draga úr útbreiðslu vírussins.

„Þó Covic-19 geti breiðst út með smituðum hlutu, þá er óvíst hve lengi vírusinn lifi af á seðlum,“ er haft eftir Muammad Munir, sem er faraldsfræðingur hjá Lancaster háskóla á Englandi. Hann segir sótthreinsun handa besta ráðið til að draga úr áhættu á því að breiða út vírusinn.