Kínverski þróunarbankinn keppir við Commerzbank um að kaupa Dresdner Bank, þriðja stærsta banka Þýskalands þegar litið er til eigna, að því er Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir þremur heimildarmönnum sem vel þekkja til mála.

Kínverski þróunarbankinn, sem fjármagnar einkum stórar opinberar framkvæmdir í Kína, hefur nú þegar látið gera áreiðanleikakönnun fyrir Dresdner Bank.

Kaupverðið gæti numið allt að 9 milljörðum evra, og yrði þá um að ræða stærstu einstöku erlendu yfirtökuna sem kínverskt fyrirtæki hefur ráðist í. Spænski bankinn Santander er einnig sagður hafa áhuga á Dresdner, sem tryggingafélagið Allianz keypti fyrir 23,3 milljarða evra árið 2001.

Kínversk fyrirtæki og fjárfestingarsjóðir hafa eytt ríflega 19 milljörðum Bandaríkjadala til kaupa á hlutum í Blackstone, Morgan Stanley, Barclays, Fortis og Standard Chartered Bank frá því í maímánuði árið 2007. Markaðsverðmæti þessara fjárfestinga er nú metið á aðeins um sjö milljarða dala, samkvæmt gögnum sem Bloomberg hefur tekið saman.

Heimildarmenn Bloomberg telja hins vegar Commerzbank líklegasta kaupandann að Dresdner, þar sem bankinn hafi nú þegar fengið aðgang að bókhaldi Dresdner og átt í viðræðum við stjórnendur bankans.