*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 26. nóvember 2019 12:23

Kínverjar taka yfir markað Samherja

Pökkunarmiðstöð dótturfélags Samherja í Grimsby segir upp 20 manns því J.Sainsbury hættir viðskiptum við félagið.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Dótturfélag Samherja í Bretlandi hefur misst einn af tveimur stærstu viðskiptavinum sínum í landinu í hendur kínverskra framleiðenda að því er Undercurrent News greinir frá. Ákvörðunin var þó tekin áður en Samherjamálið sem ítarlega hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarið kom upp.

Breska verslunarkeðjan J. Sainsbury hefur hætt viðskiptum við Samherja sem leitt hefur til uppsagna á 20 starfsmönnum pökkunarstarfsemi dótturfélagsins Ice Fresh í landinu. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fylgist annar stærsti viðskiptavinur Samherja í landinu, verslunarkeðjan Marks & Spencer grant með þróun Samherjamálsins í Namibíu.

Samherji stækkaði fiskpökkun sína í Grimsby í Bretlandi árið 2017 til að svara aukinni eftirspurn frá verslunarkeðjunum tveimur, en eftir að Sainsbury hætti viðskiptunum hefur skort á verkefni í fiskpökkuninni.

Ákvörðun J. Sainsbury kom þó áður en Samherjaskjölunum 30 þúsund var lekið, þar sem því er haldið fram að namibískum ráðamönnum hafi verið greitt meira en 10 milljónir Bandaríkjadala fyrir kvóta í landinu.

Undercurrent news hefur eftir breskum stjórnanda í matvælageiranum með þekkingu á málunum að ákvörðun Sainsburys sé ekki tengd Samherjaskjölunum heldur hafi verið í undirbúningi í langan tíma.

Áður en Samherji stækkaði starfsemi sína í Bretlandi útvistaði dótturfélag fyrirtækisins í landinu, Ice Fresh, hluta starfseminnar í Kína, en nú virðist sem verslunarkeðjan hafi snúið sér beint þangað út og skorið út millimanninn. Félögin Qigdao Jiarong Food Co., Tanford og Unibond, eru nú sögð sjá um fisksölu til J. Sainsbyru verslunarkeðjunnar.