Búist er við því að Kínverjar auki hernaðarútgjöld sín talsvert á næstu árum og gert er ráð fyrir að þau tvöfaldist á milli áranna 2010 og 2020. Árið 2010 eyddi Kína 123 milljörðum dollara í hernaðarmál, en árið 2020 er gert ráð fyrir að útgjöldin nemi 233 milljörðum dollara. Þetta kemur fram í skýrslu IHS Jane's. CNN greinir frá.

Aukin hernaðarútgjöld í asískum ríkjum staðsettum við Kyrrahafið hafa stóraukist á síðustu misserum vegna aukinnar hagsældar ríkja á svæðinu. Aukin spenna í Suðurkínahafi hefur eflaust einnig haft áhrif á hernaðarútgjöld ríkja á borð við Kína.

Árið 2020 koma Kínverjar til með að eyða fjórfalt á við Breta ef að spárnar standast og meira en helstu hernaðarríki Vestur-Evrópu til samans.

Indverjar taka stökk, Bandaríkin enn langstærst

Indverjar hafa einnig aukið útgjöld til hersins talsvert. Á þessu ári hafa Indverjar eytt 4 milljörðum aukalega til hernaðarútgjöld og eyða því meira en Sádí-Arabar og Rússar og eru meðal þeirra fimm þjóða sem eyða hvað mest í hernað. Indverjar verði samkvæmt spá fyrirtækisins það ríki sem eyðir þriðja mest í hernað og taki því fram úr Bretlandseyjum árið 2017.

Bandaríkin eyða enn langmest til hernaðarmála og eyða 622 milljörðum í hernaðarútgjöld á þessu ári, sem er 40% af öllu því fé sem varið er til hernaðar á árinu.

Hér má sjá lista yfir þau fimm ríki sem eyða mestu í hernaðarmál á árinu 2016:

  1. Bandaríkin
  2. Kína
  3. Indland
  4. Bretland
  5. Sádí-Arabía