Ráðamenn í Kína hafa þrýst á bandaríska þingmenn að þeir nái saman um hækkun skuldaþaksins svokallaða, þess hámarks sem bandaríska ríkið hefur sett sér í lántöku. Ríkið einfaldlega megi ekki lenda í greiðslufalli. Kínverjar hafa verið ötullir kaupendur að bandarískum ríkisskuldabréfum og eiga því mikið undir því að bandaríska ríkið standi við skuldbindingar sínar. Japanir koma aðrir í röðinni á eftir Kínverjum.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir Zhu Guangyao, aðstoðarfjármálaráðherra Kína, hafa varað við hugsanlegum neikvæðum áhrifum af því að greiði ríkið ekki af lánum sínum. Blaðið segir hann þrýsta á stjórnvöld í Bandaríkjunum, þau verði að vera raunsæ og passa sig á því að lenda ekki í greiðslufalli.

Óvíst er hins vegar hvað muni gerast. Fyrr í dag sagði reyndar Raymond McDaniel , forstjóri alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's, að hann teldi ólíklegt annað en að bandaríska ríkið standi við skuldbindingar sínar.