Fjárfestar í Japan voru heldur rólegri í nótt en fyrrinótt þegar þeir kættust yfir því að japanski seðlabankinn ætlar að halda óbreyttum stuðningi sínum við efnahagslíf landsins. Nikkei-vísitalan hækkaði um 3% í gær en lækkaði um 0,6% í nótt. Reuters-fréttastofan segir fjárfesta í Asíu jafnframt beina augum sínum að kínverska seðlabankanum sem vinni að aðgerðum sem eiga að stuðla að þvi að draga úr skuldsetningu fyrirtækja þar í landi og draga úr áhættu í fjármálakerfi landsins.

Fréttastofan segir fjárfesta almennt hafa áhyggjur af því til skemmri tíma að aðgerðir kínverska seðlabankans geti haft neikvæð áhrif og þrengt að rekstri kínverskra fyrirtækja.

Þróun Nikkei-vísitölunnar hafði áhrif út fyrir landsteina á aðra markaði í Asíu en helstu hlutabréfavísitölur lágu beggja vegna við núllið þegar viðskipti hættu þar í morgun.