Kína hefur sett á fót framleiðanda á flugvélamótorum með stofnfé sem nemur 50 milljörðum júana, sem er að andvirði 876 milljarðar króna. Er markmiðið að koma á fót innlendum, hátækniiðnaði sem geti keppt á alþjóðlegum mörkuðum.

Vilja færast hærra í virðiskeðjunni

Í umbótatilraunum kínverskra yfirvalda á ríkisfyrirtækjum sem á að færa fyrirtækin hærra í virðiskeðjunni, hefur áherslan verið á flugvélaframleiðslu, háhraðalestir og kjarnorku, en á þessum sviðum vilja kínversk stjórnvöld skara fram úr.

Ríkisstjórn Kína, borgarstjórnin í Beijing, kínversku flugvélaverksmiðjurnar Aviation Industry Corp of China (AVIC) og Commercial Aircraft Corp of China eru fjárfestar í hinni nýju Aero-engine Group of China, sem sameinar fullt af minni fyrirtækjum og 96 þúsund starfsmenn þeirra í fyrirtæki sem á einblína á hönnun, framleiðslu og prófun á flugvélamótora.

Vilja verða sterkir í flugvélaiðnaði

Hefur Xi forseti kallað eftir því að fyrirtækið hraði sjálfstæðum rannsóknum, þróun og framleiðslu á flugvélamótorum og túrbínum sem geti hálpað Kína í markmiði sínu að verða sterkt á sviði flugvélaiðnaðar.

AVIC, sem er í eigu ríkisins, tilkynnti í mars um 129 milljón júana samruna á sviði flugvélamótoraframleiðslu sem liður í markmiði sínu um að koma á fót fyrirtæki sem gæti keppt við flugvélamótorframleiðslu Pratt & Whitney.