Fjárfestahópur frá Asíu, sem meðal annars samanstendur af kínverskum fjárfestum, hefur áhuga á að kaupa 95% hlut kröfuhafa Glitnis í Íslandsbanka af því er fram kemur í Morgunblaðinu. Samkvæmt heimildum þeirra gæti kaupverðið numið um 115 milljörðum króna. Eftir því sem næst verður komist er ekki farið fram á það að fjárfestunum verði veittur afsláttur á þeim gjaldeyri sem greitt yrði með við möguleg kaup á bankanum.

Heimildir Morgunblaðsins herma að forsætisráðherra og efnahags- og fjármálaráðherra hafi verið upplýstir um áhuga fjárfestahópsins. Slitastjórn Glitnis bíður nú viðbragða stjórnvalda þess efnis hvort slík sala gæti verið hluti af mögulegum nauðasamningi þrotabúsins.

Í samtali við Morgunblaðið vildi Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, ekki tjá sig sérstaklega um málið á þessu stigi. Hann segir hins vegar að slitastjórn Glitnis upplýsi stjórnvöld um stöðu mála hvað varðar sölu Íslandsbanka eftir því sem hún telur ástæðu til. Miðað við þær verðhugmyndir sem uppi eru í viðræðunum þá gætu kröfuhafar verið að fá yfir 80% af bókfærðu eiginfjárvirði Íslandsbanka. Það er mun hærra verð en áður hefur verið talið raunhæft.

Heimildir herma að fjárfestahópurinn muni brátt undirrita viljayfirlýsingu þar sem áhugi þeirra á að hefja formlegar viðræður um kaup á Íslandsbanka verður staðfestur.