Gengi kínverska júansins gagnvart Bandaríkjadal féll um allt að 0,7% í morgun, og hefur ekki verið lægra í rúman áratug, en gjaldeyrismarkaðir róuðust eftir að tilkynnt var um hugsanlegar viðræður milli stórveldanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði frá því nú í morgun á G7 ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Frakklandi, að kínversk yfirvöld hefðu sóst eftir nýjum tollaviðræðum. Hann sagði beiðnina vera í fyrsta sinn sem þau sæktust í einlægni eftir viðskiptasamningi, sem væri mjög jákvætt.

Fjárfestar brugðust vel við tilkynningu Trump. Framvirkt verð Bandarískra hlutabréfa hækkaði á ný eftir lækkanir morgunsins, og verð öruggari eigna á borð við gull og japanska jenið féll á móti eftir hækkanir fyrr um morguninn.

Verð Bandaríkjadals fór upp í 7,186 júön þegar mest lét, og hafði þá lækkað um 3,8% það sem af er ágústmánuði, en leita þarf aftur til febrúar 2008 til að finna jafn lágt gengi kínverska gjaldmiðilsins.

Í frétt Financial Times um málið er lækkunin rakin til ummæla bandarískra yfirvalda þess efnis að það eina sem Trump sæi eftir í tollamálum væri að hafa ekki hækkað þá enn meir en þegar hefur verið gert.

Trump tilkynnti á föstudagskvöld að hann hygðist bæði hækka og leggja nýja tolla á innflutning frá Kína, en Kína tilkynnti á móti að nýir tollar yrðu lagðir á bandarískan innflutning.