Fyrr í vikunni var stofnað fyrirtækið Water Management ehf., en tilgangur þess er að stofna átöppunarverksmiðju hér á landi og selja íslenskt vatn á alþjóðamarkaði.Stofnendur fyrirtækisins eru kínverskir en einn þeirra hefur búið á Íslandi um árabil og er með ríkisborgararétt.

Jónas Örn Jónasson, lögmaður fyrirtækisins, segir hugmyndina enn vera á byrjunarstigi. Ekki er búið að finna húsnæði fyrir starfsemina. „Það er ekkert konkret komið, við höfum verið að skoða ákveðna möguleika en það er ekkert komið á borðið sem búið er að taka ákvörðun um,“ segir Jónas.