Sala Karls Steingrímssonar á Skúlagötu 51 til kínverska sendiráðsins hefur verið talsvert í umræðunni og er orðið að lögreglumáli. Eftir því sem komist verður næst hyggjast Kínverjar halda húsinu þótt augljóst sé að það hefði verið hægt að fá það 300 milljónum krónum ódýrara en raun ber vitni.

Alllangt er síðan Kínverjar hófu að skoða möguleika á nýju sendiráði enda vilja þeir ekki vera í íbúðahverfi. Kínverjunum stóð til boða að fá lóð hjá Reykjavíkurborg og var um tíma rætt um að þeir hreiðruðu um sig í Öskjuhlíðinni.

Fjárveiting fyrir nýju sendiráði mun hafa legið fyrir áður en sendiherraskipti urðu hjá Kínverjum fyrir ári.