Kínversk yfirvöld rannsaka þessa dagana hvort fyrrverandi forstjóri kínversku orkustofnunarinnar hafi gerst sekur um spillingu, lygar og hótanir. Maðurinn heitir Liu Tienan. Bandaríska dagblaðið The New York Times segir hann grunaðan um að hafa hótað ástkonu sinni lífláti og logið til um námsferil sinn.

Blaðið segir málið hafa komið upp um síðustu jól þegar kínverskur blaðamaður sakaði Tienan um spillingu. New York Times og fleiri erlendir fjölmiðlar segja að þegar mál af þessum toga hafi komið upp í gegnum tíðina hafi stjórnvöld hert á ritskoðun sinni á netinu og eytt því. Það sé hins vegar dæmi um breytta stjórnarhætti Xi Jinping sem tók við forsetaembættinu í Kína í vor að mál Tienan sé til rannsóknar.