Mikil eftirspurn var eftir hlutabréfum kínverska líftæknifyrirtækisins CanSino Biologics sem var skráð í Sjanghæ Kauphöllina í dag. Fyrirtækið hefur unnið að bóluefni fyrir Covid-19 veiruna í samstarfi við ónæmisfræðinga kínverska frelsishersins en tilraunalyfið hefur þegar verið samþykkt fyrir hermenn. Financial Times segir frá .

Gengi bréfanna hækkaði um 85% á fyrsta degi viðskipta í Sjanghæ Kauphöllinni. Hlutabréf CanSino hafa einnig verið skráð í Hong Kong Kauphöllina frá því í mars á síðasta ári en þau hafa hækkað um meira en 220% í ár.

Bóluefnið er hannað til að mynda ónæmisviðbrögð við kórónaveirunni með því að nota kvef sem hefur verið efnafræðilega breytt. Tilraunalyfið fer bráðlega í lokastig klínískra tilrauna í Sádi Arabíu en það er enn nokkrum mánuðum frá almennri dreifingu.

Sumir fjárfestar hafa dregið viðskipalíkan fyrirtækisins í efa. Fram kom í útboðslýsingu að félagið hafi tapað 157 milljónum yuan, eða um þremur milljörðum króna, á síðasta ári samanborið við 64,4 milljóna yuan tap árið 2017.

Hlutabréfin eru skráð á svokölluðum Stjórnumarkaði (e. STAR Market) í Sjanghæ Kauphöllinni, sem opnaði fyrir rúmu ári síðan en einungis tæknifyrirtæki eru skráð á honum. Stjörnumarkaðurinn er þekktur fyrir skrautleg útboð en sem dæmi þá hækkaði gengi örgjörvaframleiðandans SMIC um 246% við skráningu í síðasta mánuði .

„Áður en Stjörnumarkaðurinn kom til sögunnar, þá var ekki möguleiki á skráningu á markaði fyrir óarðbært fyrirtæki líkt og CanSino,“ er haft eftir Zhao Bing, greiningaraðila Huajing Securities.

Mikil spákaupmennska virðist vera í kringum CanSino að mati Brock Silvers, fjárfestingastjóra Adams Asset Management. „Enginn hagnaður, æði í kringum tæknifyrirtæki, feiknamikil áhætta en bréfin eru samt á yfirverði,“ segir Silvers.