Hlutabréf á kínverskum markaði hækkuðu mikið í verði í viðskiptum dagsins og hafa ekki verið hærri síðan í ágústmánuði árið 2009. BBC News greinir frá þessu.

Li Keqiang, forsætisráðherra landsins, sagði í gær að stjórnvöld væru reiðubúin að beita sértækum aðgerðum til þess að örva hagvöxt í landinu, en hann var sá lægsti í aldarfjórðung á síðasta ári þegar hann nam 7,4%.

Markaðurinn brást vel við þessum tíðindum og hækkaði Shanghai Composite vísitalan um 1,8% í kjölfarið. Stendur hún nú í 3.434 stigum og hefur ekki verið hærri í meira en fimm ár. Þá hækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 0,4% en hún stendur í 23.915 stigum.

Þá hélt Nikkei-vísitalan í Japan áfram að hækka, en á föstudaginn fór hún yfir 19 þúsund stig í fyrsta skipti í fimmtán ár. Hækkaði hún um 0,11% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 19.274 stigum.