Bóla virðist vera að springa á kínverska hlutabréfamarkaðnum. Kínverska SHCOMP vísitalan, sem inniheldur félög sem skráð eru í kauphöllina í Shanghai, hefur fallið um 30% síðan 12. júní síðastliðinn. Á tímabilinu frá því í júní 2014 þangað til í júní 2015 hækkaði vísitalan um 150%.

173 félög á hlutabréfamörkuðunum í Shanghai og Shenzhen stöðvuðu viðskipti með hlutabréf sín eftir lokun markaða í dag. Þar með hafa 940 félög stöðvað viðskipti með hlutabréf sín, eða meira en þriðjungur allra þeirra félaga sem voru skráð á markaðina áður en krísan hófst.

Financial Times greinir frá því að krísuna megi rekja til herðingar reglna um vogaðar stöður. Kínversk yfirvöld hertu í síðasta mánuði reglur um lánstökur til hlutabréfaviðskipta vegna ótta um að bóla gæti verið í uppsiglingu á eignamörkuðum.

Haft er eftir ýmsum sérfræðingum um kínverska markaðinn að aðgerðir stjórnvalda til að sporna við þeirri lækkun verðs sem orðið hefur síðasta mánuðinn hafi lítinn árangur borið. Stjórnvöld hafi áhyggjur af því að virðast örvæntingarfull og hefur blaðamönnum í Kína verið bannað að nota orð á borð við „krísa“ um þróunina.

Markaðsvirði félaga á kínverskum hlutabréfamörkuðum hefur lækkað um 3.000 milljarða dollara síðan krísan hófst, eða sem jafngildir um 402.000 milljörðum íslenskra króna. Það er 200 sinnum meiri fjárhæð en landsframleiðsla Íslands á síðasta ári.