*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Erlent 10. júlí 2015 08:37

Kínversk hlutabréf hækka áfram

Óljóst hver langtímaáhrif vegna lækkunar á markaði verða. Shanghæ vísitalan hækkaði um 6% í gær.

Ritstjórn

Gengi kínverskra hlutabréfa halda áfram að hækka í dag, annan daginn í röð eftir mikið fall síðustu daga. Í gær hækkaði Shanghæ vísitalan um sex prósentustig og hefur hækkað um 4,5% það sem af er degi. Í markaðspunktum IFS greiningar segir jafnframt að CSI 300, sem er markaðsvigtuð flot vísitala A-hlutabréfa í Kína, hafi hækkað um 12,1% frá því hún náði vissum botni þann 8 júlí.

Shanghæ vísitalan hefur lækkað um 30% frá því um miðjan júní. Fallið varð svo mikið að kínversk stjórnvöld gripu til umfangsmikilla aðgerða til að rétta markaðinn við og eru aðgerðirnar taldar helsti orsakavaldur hækkananna. Á meðal þeirra var að banna þeim sem eiga meira en 5% eignarhlut í fyrirtæki að selja hann innan sex mánaða frá kaupum, frestun hlutafjárútboða auk vaxtalækkana. 

Að sögn greiningaraðila sem Reuters ræddi við er búist við frekari aðgerðum frá kínverskum stjórnvöldum á næstunni en óvíst er hver langtímaáhrifin verða af lækkun síðustu tveggja vikna á markaðnum. Í gær birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hagspá sína en í henni er gert ráð fyrir óbreyttum hagvexti í Kína á árinu auk þess sem að Oliver Blanchard, yfirhagfræðingur AGS, sagði að bólan á kínverska markaðnum væri sprungin.

Stikkorð: Kína Kína kínversk hlutabréf