Hlutabréf kínverskra fyrirtækja sem skráð eru á markað í Bandaríkjunum hafa ekki fallið meira yfir tveggja daga tímabil síðan í fjármálakreppunni árið 2008. BBC greinir frá.

Nasdaq-vísitala kínverskra hlutabréfa, sem inniheldur 98 stærstu kínversku fyrirtækin sem skráð eru á bandarískum mörkuðum, hefur fallið um nærri 15% undanfarna tvo viðskiptadaga. Þá hefur vísitalan fallið um 45% síðan hún náði sögulegu hámarki í febrúar á þessu ári.

Um 770 milljarðar dollara af markaðsvirði kínverskra fyrirtækja, skráð á Bandaríkjamarkað, hafa strokast út á síðustu fimm mánuðum.

Niðursveiflan kemur í kjölfar herferðar kínverskra stjórnvalda gegn eigin tækni- og menntunargeira. Nýjasta vendingar í þessari herferð er ákvörðun kínverskra stjórnvalda um að öll einkakennsla skuli ekki rekin í hagnaðarskyni. Í kjölfar fréttanna féllu fyrirtæki í geiranum töluvert, en talið er að virði hans í Kína nemi allt að 120 milljörðum dollara.

Þá hafa kínversk stjórnvöld einnig beint sjónum sínum að tveimur stærstu tæknifyrirtækjum landsins, Alibaba og Tencent. Fyrr á árinu var Alibaba sektað um þrjá milljarða dollara fyrir brot á markaðsráðandi stöðu. Þá var Tencent nýverið skipað að binda enda á einkarétt sem félagið hafði gert um leyfisveitingu á tónlist útgáfufyrirtækja víðs vegar um heim.