Shanghaí-vísitalan hefur hækkað um 5,76% frá opnun markaða í dag. Vísitalan hefur ekki hækkað svo skarpt frá árinu 2009. Talið er að ákvörðun kínverskra stjórnvalda um að banna þeim sem kaupa meira en 5% eignarhlut að selja hann innan sex mánaða frá kaupum, hafi ýtt við markaðnum. Vísitalan stendur nú í 3.709,33 stigum, að því er kemur fram á BBC.

Yfirvöld hafa undanfarna daga sagst muna mæta þeim sem fari á svig við reglur með hörku. Meðal annars sé til rannsóknar „miskunnarlaus skortsala" á hlutabréfamarkaði.

Kínversk stjórnvöld hafa bryddað upp á ýmsum nýjungum undanfarna viku til að reyna að draga úr þrýstingi á hlutabréfamarkaði, en Shanghaí vísitalan hefur lækkað um rúm 30% frá því um miðjan júní. Í gær lækkaði hún um allt að 8,2% þegar mest lét. Ein reglubreytinganna miðar að því fá kínverskan almenning til að taka aukinn þátt á hlutabréfamarkaði, með því að slaka á lánareglum.