Gengi kínverskra hlutabréfa hækkaði talsvert í nótt eftir þónokkuð verðhrun í upphafi vikunnar. Við lokun markaða í morgun stóð Shanghai-vísitalan í 3.789 stigum og hafði þannig hækkað um 3,44% yfir daginn.

Gengi vísitölunnar hrundi á mánudag þegar hún féll um 8,5% á einum degi. Slík lækkun hafði ekki sést á svo stuttum tíma á kínversum hlutabréfamarkaði síðan í febrúar árið 2007. Þá lækkaði Hang Seng-vísitalan í Hong Kong um 3,3% sama dag.

Vísitölurnar lækkuðu einnig lítillega degi síðar, en fóru svo hækkandi í gær. Hang Seng-vísitalan hækkaði um 0,47% og stendur nú í 24.619 stigum.