Shanghai-vísitalan í Kína hækkaði um 4,8% í viðskiptum dagsins, en í gær hækkaði gengi hennar um 5,3% í kjölfar mikilla lækkana fyrstu þrjá daga vikunnar. Gengi vísitölunnar hefur nú lækkað um 8% frá því sem var í upphafi vikunnar, en á tímabili var útlit fyrir að skellurinn yrði mun stærri. Vísitalan stendur nú í 3.232 stigum.

Þá hækkuðu vísitölur á öðrum mörkuðum í Asíu í nótt. Hang Seng-vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,6%, Shenzhen-vísitalan hækkaði um 5,4% og Nikkei-vísitalan í Japan hækkaði um 3%. Þrátt fyrir þennan viðsnúning í lok vikunnar hafa greiningaraðilar enn áhyggjur af kínversku hagkerfi og er því ljóst að ástandið heldur áfram að vera viðkvæmt.