Bandaríski tæknirisinn Qualcomm, sem framleiðir meðal annars tæknibúnað í snjallsíma, þarf að greiða sekt sem nemur 975 milljónum dala til kínverskra stjórnvalda fyrir að brjóta gegn samkeppnislöggjöf landsins. BBC News greinir frá málinu.

Um er að ræða hæstu sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki í landinu, en sektin samsvarar um 130 milljörðum íslenskra króna.

Auk þess að greiða sektina mun fyrirtækið þurfa að lækka fjárhæð þóknana sem það rukkar vegna hugverkaréttinda sinna á kínverskum snjallsímamarkaði. Verða þóknanir nú miðaðar við 65% af söluverði snjallsíma í stað þess að miða við fullt verð líkt og fyrirtækið gerði áður.

Þegar fréttir bárust af því að niðurstaða hefði náðst í málinu hækkuðu hlutabréf Qualcomm um 2,8% í kauphöllinni í New York, en kínverskur markaður er gífurlega mikilvægur fyrir fyrirtækið. Þannig aflaði það helming tekna sinna á markaðnum á síðasta fjárhagsári þegar þær töldu 26,5 milljarða dala í heildina.

Þá jók Qualcomm við hagnaðarspá sína fyrir yfirstandandi fjárhagsár vegna samkomulagsins.