*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 28. september 2020 11:18

Kínverska hagkerfið jafnar sig

Styrking galdmiðilsins í Kína hefur ekki verið meiri á einum ársfjórðung síðan 2008. Hlutabréfavísitölur styrkjast.

Ritstjórn
epa

Kínverska yuanið stefnir nú í að eiga sinn sterkasta ársfjórðung í samanburði við Bandaríkjadalinn í áratug, vegna aukinnar bjartsýni á hagvöxt í landinu og hás vaxtastigs. Styrking myntar landsins frá því í júlíbyrjun til síðasta föstudags nam 3,7% á móti dalnum, sem gæti verið mesta styrking kínversu myntarinnar gagnvart þeirri bandarísku frá árinu 2008.

Samkvæmt sögulegum gögnum eru fyrri söguleg met frá 8. og 9. áratugnum, löngu áður en umbætur voru gerðar á gjaldeyrismörkuðum landsins árið 1994. Á sama tíma hækkar hlutabréfaverð í kauphöllinni í Hong Kong í kjölfar birtingar gagna sem sýna að þetta næst stærsta hagkerfi heims sé að jafna sig eftir heimsfaraldurinn sem átti uppruna sinn í landinu.

Þannig hækkaði Hang Seng vísitalan í kauphöll borgarinnar um 1,04% í viðskiptum dagsins í dag, mánudag, meðan Hang Seng China Enterprises vísitalan hækkaði um 0,87%, að því er fram kemur í Reuters.

Jafnað sig á heimsfaraldrinum á undan öðrum

Kórónuveirufaraldurinn, sem átti upptök sín í borginni Wuhan í Kína snemma á árinu eða seint á því síðasta hefur leikið hagkerfi landsins grátt. Auk þess að vera það fyrsta fyrsta til að verða fyrir áhrifum faraldursins er það jafnframt líka talið hafa náð fyrst stjórn á honum.

Þannig var útflutningur í ágústmánuði meiri en væntingar voru um, en meiri viðskipti við Bandaríkin þýðir aukin eftirspurn eftir gjaldmiðlinum. Fór yuanið í þessum mánuði niður fyrir 6,8 dali og hefur það ekki verið sterkara síðan í maí 2019. Þegar þetta er skrifað fæst 6,81 yuan fyrir Bandaríkjadalinn.

Jafnframt hefur seðlabanki landsins lækkað vexti minna síðustu mánuði sem hefur hjálpað til við að auka eftirspurn eftir skuldabréfum landsins og fyrirtækja í Kína.

Samkvæmt könnun WSJ meðal 14 hagfræðinga og annarra sérfræðinga hjá Goldman Sachs og United Overseas Bank, telja þeir að gjaldmiðillinn muni styrkjast enn frekar á næsta árinu eða svo og ná því að 6,5 yuan jafngildi einum dal.

Aðrir telja þróunina þó verða í hina áttina og dalurinn fari í 7,6 yuan, en flestar spár eru á bilinu 6,55 til 7,05 dali. Yuanið sveiflast þó minna en fljótandi gjaldmiðlar, en stjórnvöld í kommúnistaríkinu reyna að stjórna verði hans í gegnum gjaldeyrishöft, afskipti ríkisbanka og mörk á daglegum sveiflum í viðskiptum innanlands.