Kínverskir eftirlitsaðilar hafa gert níu trygginga-, fjárvörslu- og verðbréfafyrirtæki upptæk. Það geti verið vísbending um að ríkisstjórnin sé að fela áhættur sem leynast innan fjármálageirans, segir í frétt Financial Times .

Að minnsta kosti fjórar af þessum stofnunum höfðu tengsl við viðskiptajöfurinn Xiao Jianhua, sem stjórnaði áður Baoshang Bank, sem var þjóðnýttur á síðasta ári. Jianhua var handsamaður af kínverskum útsendurum í Hong Kong árið 2017.

Í tilkynningu Banka- og tryggingaeftirlitsráðs Kína (CBIRC) á föstudaginn kom fram að stofnunin muni taka yfir fjögur tryggingafyrirtæki og tvö fjárvörslufyrirtæki, þar á meðal Huaxia Lifa sem hefur um 85 milljarða dollara í heildareignir og er með 500 þúsund starfsmenn, til að „vernda hagsmuni almennings“. Hópur af ríkisreknum trygginga- og fjárvörslufyrirtækjum mun taka þátt í yfirtökunum.

Í aðskildri tilkynningu, sem birt var á sama tíma, frá Kínverska verðbréfaeftirlitinu segir að það muni gera tvö verðbréfafyrirtæki upptæk, þar á meðal Gueosen Securities, sem er eitt af 15 stærstu verðbréfafyrirtækjum í Kína.

Kínversk stjórnvöld hafa haft sífellt meiri áhyggjur af stjórnun fjármálafyrirtækja og birtu í þarsíðustu viku 38 manna lista yfir einstaklinga sem munu þurfa að selja hluti sína í bönkum og tryggingafyrirtækjum. Aðilar á listanum eru ásakaðir um að hafa nýtt eignarhald sitt í bönkum til að fá aðgang að ódýrum lánum.

Á síðastliðnu ári hafa stjórnvöld þurft að stíga inn og taka yfir ýmsar fjármálastofnanir, þá aðallega banka, sem voru á barmi gjaldþrots. Kínverska ríkið hefur bjargað fimm bönkum frá því í maí í fyrra.