Leigufélagið BOC Aviation, í meirihlutaeigu kínverska ríkisins, er orðinn einn stærsti hluthafi Norwegian eftir að hluta skulda félagsins var breytt í hlutafé að því er FT greinir frá.

Samkvæmt upplýsingum um hluthafa sem birtar voru í gær á á BOC 12,67% hlut í Norwegian. BOC Aviation er í eigu Bank of China sem er í eigu kínverska ríkisins. Þá eignast írska flugleigufélagið AerCap 15,9% hlut í Norwegian.

Skuldbreytingin varð til þess að Norwegian uppfyllti skilyrði norskra stjórnvalda um 3 milljarða norska króna ríkislán. Með skuldbreytingunni hækkar eiginfjárhlutfall félagsins úr 5% í 17%.

Með skuldbreytingunni þurrkaðist eignarhlutur hluthafa Norwegian út að mestu. Hlutabréfaverð í Norwegian hefur fallið um yfir 90% á þessu ári. Félagið stefnir á að vera í nokkurskonar híði næsta árið en hefja áætlunarflug í hægum skrefum eftir. Leiðakerfi félagsins muni ekki komast í eðlilegt horf fyrr en í ársbyrjun 2022.

BOC Aviation er einn stærsti flugvélaleigusali heims og aðstoðaði Icelandair meðal annars við fjármögnun á Boeing 737 MAX flugvélunum sem kyrrsettar hafa verið undanfarið ár.